Vonbrigði með Lovelace

Hin ævisögulega Lovelace, myndin sem byggir á lífi aðalleikkonu hinnar goðsagnakenndu klámmyndar Deep Throat, eða Djúpt í koki, eins og hún er gjarnan kölluð á íslensku, Lindu Lovelace, þénaði aðeins 184 þúsund Bandaríkjadali nú um helgina í 118 sýningarsölum, sem eru talsverð vonbrigði fyrir aðstandendur.

lovelace1

Í aðalhlutverki er Mamma Mia leikkonan Amanda Seyfried, en einnig leikur Peter Sarsgaard í myndinni m.a.

Kvikmyndafyrirtækið Arrow Production reyndi á elleftu stundu að koma í veg fyrir sýningu myndarinnar, en fyrirtækið á réttinn að Deep Throat myndinni. Arrow vildi fá 10 milljónir dala í bætur fyrir brot á lögum um höfundarrétt og vörumerki. Dómari í New York hafnaði hins vegar kröfunni, og þá gat myndin farið í sýningu eins og upphaflega var áætlað.

Í kærunni kom fram að Arrow sagði að framleiðendur Lovelace hefðu notað meira en fimm mínútur af efni úr upprunalegu myndinni, og þar með brotið gegn rétti þeirra.

Myndinni gekk þó betur á Netinu, en hægt hefur verið að leigja myndina í iTunes myndveitu Apple frá því á föstudag, sama tíma og hún var frumsýnd í bíó, en myndin situr nú í dag, sunnudag, í fjórða sæti iTunes leigulistans.