Djúpið aftur á toppnum

Toppmyndin á Íslandi aðra vikuna í röð á íslenska aðsóknarlistanum er bíómynd Baltasars Kormáks Djúpið, en myndin hefur verið að fá góða dóma og almennt mjög góðar viðtökur hjá bíógestum. Í öðru sæti, rétt eins og í Bandaríkjunum, er tímaflakksmyndin Looper með þeim Bruce Willis og Joseph Gordon-Levitt, sem kvikmyndir.is forsýndi fyrir réttri viku síðan í SAM bíóunum Egilshöll. Í þriðja sæti, ný á lista eins og Looper, er myndin Savages, en um hana var fjallað hér á kvikmyndir.is í gær. Í fjórða sæti er svo hin stórgóða bannáramynd Lawless sem byggð er á sannsögulegum atburðum, en þar láta Tom Hardy og Shia LaBeouf ljós sitt skína, ásamt fleiri góðum leikurum. Lawless var númer 2 í síðustu viku.

Í fimmta sæti, niður um eitt sæti síðan í síðustu viku, situr svo barnamyndin Ávaxtakarfan, þar sem ávextir og grænmeti takast á, syngja og dansa. Pixar teiknimyndin Brave, sem gerist í Skotlandi, er svo í sjötta sæti og kosningabaráttugamanmyndin The Campaign er í sjöunda sæti en í henni fara þeir á kostum gamanleikararnir Will Ferrell og Zach Galifianakis.  Fiskurinn Nemo er svo enn týndur í Finding Nemo 3D, og er ný á lista í áttunda sæti.  Ice Age 4 stendur í stað í níunda sæti, og í tíunda sætið er teiknimyndahetjan og dómarinn Judge Dredd, mættur til að fella þunga dóma.