Depp myndar sögulegan japanskan harmleik

Tökur eru hafnar á nýjustu kvikmynd þrisvar sinnum Óskarstilnefnda bandaríska leikarans Johnny Depp, Minamata, eftir Andrew Levitas, en þar fer Depp með hlutverk hins rómaða stríðsljósmyndara W. Eugene Smith.

Aðrir helstu leikarar eru Bill Nighy  (Pirates of the Caribbean: Dead Man’s Chest),  Hiroyuki Sanada (Avengers: Endgame), Tadanobu Asano ( Thor), Ryo Kase (Letters from Iwo Jima) og Jun Kunimura (Kill Bill: Vol 1 and 2)

Minamata er byggð á bók eftir Aileen Mioko Smith og W. Eugene Smith sem David K. Kessler lagaði að hvíta tjaldinu.

Um er að ræða spennutrylli, einskonar Davíðs og Golíats  – sögu, eins og það er orðað hjá MovieWeb vefsíðunni.  Sagt er frá því þegar Smith tekst á við valdamikið fyrirtæki sem ábyrgð bar á kviksasilfurseitrun í bænum Minamata í Japan árið 1971.  Ljósmyndun Smith á vettvangi olli því að augu heimsins beindust að atburðunum.

Kvikmyndin hefst á því þegar Smith hefur að mestu dregið sig í hlé eftir að hafa getið sér gott orð sem ljósmyndari í Seinni heimsstyrjöldinni. Hvatning gamals vinar og eftirfylgni frá ritstjóra Life Magazine, sannfærir hann um að fara til Japans á ný, til að afhjúpa risastórt mál, hræðilega gereyðingu strandbæjar, þar sem fólk varð fórnarlömb græðgi fyrirtækis á staðnum, og þar sem lögreglan og stjórnvöld á staðnum voru samsek. Með myndavélina eina að vopni, þá þarf Smith að öðlast traust samfélagsins, og ná sjónarhornum sem gætu  dugað til að beina athygli umheimsins að málinu.

Skaðabótamál fórnarlamba gegn fyrirtækinu varð til þess að greiddar voru út hæstu skaðabætur allra tíma, og enn í dag er fólk fyrir dómi að reyna að ná fram rétti sínum.

Á MovieWeb síðunni segir að tökulið myndarinnar hafi eytt góðum tíma í Minamata, og hitt þar fórnarlömb og fjölskyldur þeirra. Þá kemur fram að myndin sé gerð með þeirra stuðningi.