Alien vélmenni Fassbenders – Fyrsta mynd

Framleiðendur vísindaskáldsögunnar Alien Covenant, sem er framhald myndarinnar Prometheus og áframhaldandi forsaga Alien myndanna, hafa verið að birta aðdáendum myndanna nýjar upplýsingar reglulega síðustu vikur á Twitter.

phjcy5qjyub1mr_1_l

 

Í fyrradag var birt hrollvekjandi og blóðug mynd af ummerkjum atviks þegar geimvera brýst út úr brjósti manns með tilheyrandi hryllingi.

Fæstar myndanna sem birtar hafa verið innihalda neinn leikara en nú virðist vera orðin breyting þar á þar sem vélmennið Walter, sem leikið er af Michael Fassbender, er nú birt í fyrsta skipti á ljósmynd úr myndinni, sitjandi berfættur í hvítum fötum við píanó. Fassbender leikur tvö vélmenni í myndinni. Annarsvegar David úr Prometheus, og svo þennan sem nú birtist.

Walter er aðstoðarmaður áhafnarinnar á geimskipinu Covenant, en ekkert er vitað að sinni hvert hlutverk hans er í smáatriðum.

Auk þess er búið að birta mynd af persónu Katherine Waterstone, Daniels. Það var Empire kvikmyndaritið sem birti myndina af Daniels fyrst.

ph1qy14zd4xi42_1_l

Í Empire er rætt við bæði Waterstone og Fassbender, sem segir myndina verulega hrollvekjandi.

Waterstone minnir óneitanlega á sjálfa Ellen Ripley, aðalpersónu Alien myndanna, sem Sigourney Weaver leikur. Orðrómur hefur verið uppi um að Daniels sé móðir Ripley.

Þá hefur verið staðfest að James Franco leiki persónu að nafni Branson í myndinni, en hann er skipstjóri Covenant, og er kvæntur Daniels.

Frumsýning myndarinnar er áætluð 19. maí nk. þannig að fyrsta stikla ætti að fara að birtast fljótlega.

Í myndinni fylgjumst við með geimskipinu Covenant sem er á leiðinni til fjarlægrar plánetu. Þegar þangað er komið þá finna þau David einn og yfirgefinn, en einnig hinar ófrýnilegu Xenomorph geimverur.