Day-Lewis heimsækir sögustaði fyrir Abraham Lincoln

Óskarsverðlaunaleikarinn Daniel Day-Lewis undirbýr sig nú af kappi undir næsta hlutverk sem fyrrum forseti Bandaríkjanna Abraham Lincoln. Fyrsta stopp hjá Lewis er ríkið þar sem forsetinn fyrrverandi hóf sinn stjórnmálaferil; Illinois.
DreamWorks kvikmyndafyrirtækið segir að Day-Lewis muni leika aðalhlutverkið í myndinni Lincoln sem leikstýrt verður af sjálfum Steven Spielberg. Myndin verður byggð á bókinni Team of Rivals eftir Doris Kearns Goodwin, sem slóst í för með Lewis í yfirreið hans um Illinois.
The State Journal-Register segir frá því að leikarinn, sem þekktur er fyrir góðan undirbúning undir hlutverk sín, hafi farið á margar sögulegar slóðir sl. föstudag í Springfield, þar á meðal á Abraham Lincoln safnið, heimili Lincoln og þingúsið, eða the Old State Capitol, þar sem Lincoln starfaði sem þingmaður.
Tökur á myndinni hefjast næsta haust, og myndina á að frumsýna seint á árinu 2012.

Þeir eru sláandi líkir, Daniel Day-Lewis og Abraham Lincoln – eða hvað finnst ykkur?