Tökur Suicide Squad 2 gætu hafist 2018

Suicide Squad leikarinn Joel Kinnaman segir að handrit ofurhetjumyndarinnar Suicide Squad 2 sé í smíðum, og horfur séu á að tökur geti hafist á næsta ári, 2018.

Fyrri myndin, í leikstjórn David Ayer, var frumsýnd í ágúst á síðasta ári, en hún fjallaði um ýmsar andhetjur úr heimi DC Comics, svo sem Jókerinn, Harley Quinn og Deadshot.

 

Myndin féll ekki í kramið hjá gagnrýnendum, en almenningur var á öðru máli og fjölmennti á myndina. Tekjur Suicide Squad námu áður en yfir lauk 325,1 milljón bandaríkjadölum í Bandaríkjunum, og 420,5 milljónum dala utan Bandaríkjanna, samtals 745,6 milljónum dala.

Það var því ekki erfið ákvörðun fyrir framleiðendur myndarinnar að setja framhaldsmynd á dagskrá.

Kinnaman hafði þetta að segja við The Hollywood Reporter um málið:

„Eftir því sem ég best veit er handritið í smíðum og áætlað er að hefja tökur myndarinnar árið 2018, en það gæti breyst. Ég held að ég myndi klárlega mæta aftur til leiks.“

Það eina sem er annað vitað um Suicide Squad 2 er að Ayer hefur yfirgefið skútuna til að stýra annarri DC Comics mynd, Gotham City Sirens.

„Ég væri til í að fá Ayer aftur sem leikstjóra, en ef hann vill ekki taka verkefnið að sér, þá væri gaman að fá einhvern sem er góður í að vinna með ólíkar persónur, og gæti fundið sterkan grunntón í myndina, og jafnvel unnið með persónurnar í venjulegri aðstæðum. Það væri gaman að sjá þessar klikkuðu persónur eiga samskipti við venjulegt fólk líka.“

Enn er leitað að leikstjóra. Fyrr á árinu staðfesti Mel Gibson að hann ætti í viðræðum um að taka að sér verkefnið, en ekkert er enn að frétta af þeim viðræðum.

Guy Ritchie ku vera áhugasamur einnig en eftir að King Arthur: Legend of the Sword olli vonbrigðum í miðasölunni, er ekki víst að hann eigi jafn mikla möguleika.