Lin í Space Jam 2

Leikstjórinn Justin Lin, sem er þessa dagana að leggja lokahönd á nýju Star Trek myndina, Star Trek Beyond, á nú í viðræðum um að leikstýra myndinni Space Jam 2, en 20 ár eru síðan fyrsta myndin, Space Jam, var frumsýnd.

space jam

Bill Murray, Kalli kanína og Michael Jordan í Space Jam frá 1996

Körfuboltasnillingurinn LeBron James mun fara með aðalhlutverkið, en í fyrri myndinni var það önnur goðsögn úr körfuboltaheiminum, Michael Jordan, sem lék á móti teiknimyndafígúrum, og hjálpaði þeim í körfuboltaleik á móti geimverum.

Gera má ráð fyrir því að geimverurnar mæti aftur til leiks í nýju myndinni, en handritshöfundur myndarinnar, Andrew Dodge, sem hefur unnið með Lin að nokkrum verkefnum, er nýbyrjaður að vinna að handritinu samkvæmt Empire kvikmyndaritinu.

James hefur ekki mikla reynslu af leiklist, en það var samdóma álit manna að hann hefði staðið sig vel í gamanmyndinni Trainwreck, þar sem hann lék sjálfan sig sem skjólstæðing íþróttalæknis sem Bill Hader lék, og Amy Schumer átti í sambandi við.

Star Trek Beyond kemur í bíó hér á Íslandi 20. júlí nk.