Wakamatsu er látinn – varð fyrir bíl

Japanski leikstjórinn Koji Wakamatsu er látinn, 76 ára að aldri. Hann lést af völdum meiðsla sem hann hlaut þegar leigubíll ók á hann í Shinjuku hverfinu í Tókýó í Japan á föstudaginn síðasta.

Lögregla sagði að hann hefði mjaðmagrindarbrotnað í slysinu, en meiðslin áttu ekki að hafa verið lífshættuleg.

Slysið átti sér stað kl. 22 á föstudaginn, á fjögurra akreina vegi þar sem voru engin umferðarljós, né gangbraut. Ökumaðurinn var handtekinn og yfirheyrður af lögreglu.

Wakamatsu var valinn með mynd sína Caterpillar á kvikmyndahátíðina í Berlín árið 2010, en áður hafði hann sýnt hina ævisögulegu mynd um skáldið og leikstjórann Yukio Mishima, 11:25: The Day He Chose His Own Fate, í Cannes og hin drungalega The Millennial Rapture var sýnd á Feneyjarhátíðinni í september sl.

Wakamatsu var valinn leikstjóri ársins í Asíu á nýafstaðinni kvikmyndahátíð í Busan í Suður-Kóreu.  Hann var nýkominn aftur heim til Japan þegar hann lenti í slysinu.