Caine vildi ekki að Seagal pakkaði sér saman

Bandaríska tónlistarblaðið Rolling Stone spurði breska tvöfalda Óskarsverðlaunaleikarann Michael Caine, 85 ára, að því m.a. á dögunum hvort það væri eitthvað kvikmyndahlutverk á ferlinum sem hann óskaði sér að hann hefði ekki tekið að sér. “Ég hef aldrei gert nein slík mistök,” sagði Caine. “Ég lék eingöngu hin hlutverkin – þau sem ég hafnaði ekki.”

En Caine ákvað þó í þessu samhengi að rifja upp hlutverk í Steven Seagal myndinni On Deadly Ground, frá árinu 1994. “Þetta er ekki ein af mínum uppáhalds upplifunum, vægast sagt. Við vorum í Alaska. Hann var bara vinalegur, en ég hitti hann mjög sjaldan; hann fór ekki mikið út úr húsbílnum. Hann var einn besti, þú veist, þarna jiu-jitsu meistari í heimi [ Steven Seagal er í reynd með sjöunda dan í Aikido bardagaíþróttinni ]  Ég passaði mig á að rífast aldrei við hann. Ég vildi ekki láta hann pakka mér saman.”

Í sama viðtali ítrekaði leikarinn stuðning sinn við Brexit, eða útgöngu Breta úr Evrópusambandinu, og sagðist vera hægrisinnaður sósíalisti, eða vinstri sinnaður íhaldsmaður.

Þá endurtók hann frasa sem hann hefur áður notað: „Ég vil frekar vera fátækur herra, en ríkur þjónn.“