Lego-mynd fær græna ljósið

Við höfum vitað í dálítinn tíma að leikstjórar Cloudy with a Chance of Meatballs, þeir Phil Lord og Chris Miller hefðu verið ráðnir til þess að gera kvikmynd byggða á Lego-kubbum fyrir Warner Brothers, og nú höfum við fengið staðfestingu á því að myndin mun verða að veruleika og er væntanleg í bíó 2014. Þeir Lord og Miller eru nú að leggja lokahönd á sína fyrstu leiknu mynd, 21 Jump Street sem byggir á samnefndum 80’s unglingaþáttunum með Johnny Depp og skartar þeim Channing Tatum og Jonah Hill í aðalhlutverkum. Etv. vegna anna þeirra tveggja hefur þriðji leikstjórinn stokkið um borð, en það er Chris McKay, sem á að baki Robot Chicken þættina víðfrægu.

Ekki er mikið vitað um myndina, en víst er að hægt er að gera mynd um nánast hvað sem er þó nota eigi Lego sem upprunaefni. Sagt er að myndin verði blanda af leikinni mynd (20%) og teiknimynd (80%) og verði hasarævintýri sem gerist í Lego heiminum. Í rauninni er það alls ekkert versta hugmyndin sem Hollywood hefur gert að veruleika upp á síðkastið, kvikmynd byggð á spilinu sjóorrusta er handan við hornið, og kvikmyndir eftir leikföngum og spilum á borð við Ouija og Candyland (sem eru held ég ekki þekkt fyrirbæri hér á landi) eru í vinnslu. En Lego er eitthvað sem allir þekkja og skilja og gæti alveg orðið grunnur að skemmtilegu ævintýri ef réttu aðilarnir sitja við stjórnvölinn. Þeir Lord og Miller eiga alveg skilið séns.