Fleiri Matrix-myndir á leiðinni?

Vefsíðan Latino Review segist í þessari frétt hafa heimildir fyrir því að leikstjórarnir og systkinin Andy og Lana Wachowski séu að undirbúa nýjar Matrix-myndir sem eiga að gerast á undan þríleiknum vinsæla sem kom út í kringum aldamótin.

matrix„Warner Bros. þarf nauðsynlega að finna upp á einhverju nýju til að keppa við Star Wars– og Avatar myndirnar sem eru væntanlegar,“ sagði á vefsíðunni

„Endirinn á upphaflega Matrix-þríleiknum, þar sem hinn skeggjaði Arkitekt gefur í skyn að Neo sé ekki sá fyrsti „eini sanni“, þýðir að möguleiki er á fleiri myndum sem gerast á undan þríleiknum.“

Fyrsta Matrix-myndin kom út 1999 með Keanu Reeves (sem tölvuhakkarinn Neo), Carrie-Anne Moss, Laurence Fishburne og Hugo Weaving í aðalhlutverkum.

Framhaldsmyndirnar hétu The Matrix Reloaded og The Matrix Revolutions og voru þær ekki eins vel heppnaðar og sú fyrsta.

Wachowski-systkinin hafa einnig leikstýrt Speed Racer, Cloud Atlas og hinni væntanlegu Jupiter Ascending, öllum fyrir Warner Bros.