Slösuð Gainsbourg í fyrstu mynd úr Nymphomaniac

Kvikmyndaunnendur bíða nú margir spenntir eftir næstu mynd danska leikstjórans Lars von Trier, Nymphomaniac  sem í lauslegri íslenskri þýðingu merkir sjúklega vergjörn kona.

Charlotte Gainsbourg er nú aftur í aðalhlutverki í mynd eftir von Trier, og á myndinni sem við sjáum hér að neðan, þeirri fyrstu sem birtist úr Nymphomaniac, sjáum við hana liggja meidda í húsasundi eftir að hafa orðið fyrir árás.

Samkvæmt upplýsingum á vefsíðunni thefilmstage.com þá er það næsta sem gerist í myndinni það að persóna Stellan Skarsgård mun koma og finna hana meðvitundarlausa.

Í kjölfarið verður fjallað um átta mismunandi kafla í lífi hennar þar sem leikararnir Shia LaBeouf, Jamie Bell, Stacy Martin, Christian Slater, Uma Thurman, Willem Dafoe, Connie Nielsen, Udo Kier og Jean-Marc Barr koma við sögu m.a.

Söguþáður myndarinnar er á þá leið að myndin er villt og ljóðræn saga af erótískri vegferð konu, frá fæðingu og þar til hún er orðin 50 ára gömul. Konan, Joe, sem hefur sjálf greint sig sem sjúklega vergjarna, segir sögu sína í myndinni.

Á köldu vetrarkvöldi þá kemur gamall og heillandi piparsveinn, Seligman, sem leikinn er af Skarsgård, að Joe þar sem hún liggur slösuð í húsasundi eftir að hafa verið barin til óbóta.

Hann fer með hana heim í íbúð sína þar sem hann hjúkrar henni á meðan hann spyr hana út í líf hennar. Hann hlustar með athygli á það þegar hún fer yfir 8 mismunandi kafla í lífi sínu, sem er margskipt og þar sem margt fólk kemur við sögu.

Búist er við að Nymphomaniac verði frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes í vor.