Mads aftur á köldum klaka

Danski leikarinn Mads Mikkelsen er greinilega hrifinn af kulda, snjó og harðræði. Hann var ekki fyrr búinn að leika í úthaldsdramanu Arctic, sem fjallar um mann sem er fastur á Norðurpólnum eftir hörmulegt slys, en hann setur stefnuna norður á bóginn á nýjan leik í spennutryllinum Polar.


Í myndinni, sem gerð er eftir teiknimyndasögu sem gerist í snævi þöktu umhverfi, mun Mikkelsen fara með hlutverk heimsins besta launmorðingja, Duncan Vizla, öðru nafni Black Kaiser, sem hefur ákveðið að leggja morðtólin á hilluna. En eins og ekki er óalgengt í bíómyndum af þessu tagi, þá gengur honum bölvanlega að setjast í helgan stein, vegna þess að fyrrum vinnuveitandi hans telur að tilvera hans ógni fyrirtækinu.

Þvert gegn vilja sínum þá er Vizla nú á harðahlaupum undan her af yngri, sneggri og miskunnarlausari morðingjum, sem ætla sér að drepa hann hvað sem það kostar. Hann hefur nú ekkert val lengur um að snúa aftur út á vígvöllinn, til þess lífs sem hann ætlaði sér að yfirgefa í eitt skipti fyrir öll. Nú þarf hann að rifja upp öll bestu drápstrixin til að sigrast á þessum illvígu fjendum. Að auki þarf hann að bjarga varnarlausri konu.

Jonas Åkerlund heldur um leikstjórnartaumana, og Jayson Rothewell skrifar handrit upp úr teiknimyndasögunni Polar: Came From the Cold, eða Polar: Kom inn úr kuldanum.

“Mads Mikkelsen var fæddur til að leika besta launmorðingja heims,” segir framleiðandinn Jeremy Bolt við Variety. “Hann er ótrúlega sannfærandi í hlutverki Black Kaiser.”

Auk Arctic, þá fáum fljótlega að sjá Mikkelsen í Chaos Walking, sem frumsýnd verður 1. Mars 2019.