Hart staðfestir Jumanji 2 – tökur hefjast í janúar

Grínistinn Kevin Hart hefur staðfest að framhald kvikmyndarinnar Jumanji: Welcome to the Jungle sé í vinnslu, og tökur muni hefjast eftir nokkra mánuði, nánar tiltekið í janúar 2019. Leikarinn, sem er 39 ára, sagðist verða á meðal leikenda í myndinni, en með honum í síðustu mynd léku þau Dwayne Johnson, Jack Black og Karen Gillan m.a.

“Við hefjum tökur í lok janúar. Tekjur fyrstu myndarinnar voru næstum einn milljarður bandaríkjadala, þannig að það að hafa núna möguleika á að endurtaka þær vinsældir, er hrikalega spennandi,” sagði Hart í samtali við Variety.
“Það verður gaman að hitta alla aftur. Ég get ekki beðið.”

Myndin var framhald Jumanji frá árinu 1995 með Robin Williams í aðalhlutverki, en leikstjórinn Jake Kasdan, sagði að það hefði verið áskorun að búa til einstaka sögu. “Hluti af áskoruninni er að finna út hvernig hjartað í sögunni heldur áfram að slá með sama krafti.”

Handritshöfundarnir Scott Rosenberg og Jeff Pinkner snúa aftur í nýju myndinni, og halda áfram með söguna sem hófst upphaflega með því þegar persóna Williams, Alan Parrish, maður sem hafði verið fastur inni í borðspilinu Jumanji í áratugi, var frelsaður af tveimur systkinum sem ákveða að spila leikinn sjálf. En til að gera hlutina nútímalegri, þá var borðspilið í framhaldsmyndinni orðið að tölvuleik, þar sem hópur unglinga festist í leiknum, sem persónur í honum, og þurftu að finna leiðina heim.