Efnislitlir búningar Amazon kvenna í brennidepli

Búningar Amazon kvennanna í ofurhetjumyndinni Justice League eru nú ræddir af miklum hita á samfélagsmiðlum, en fólki þykja búningarnir of efnislitlir, samanborið við búninga sömu kvenna í annarri nýlegri ofurhetjumynd, Wonder Woman. Þá undrast menn afhverju búningar karlanna hylja mun meira hold en búningar þessara kvenna.

Umræðurnar hófust eftir að leikstjóri kvikmyndarinnar, Zack Snyder, deildi ljósmynd af Amazon konunum í fullum herklæðum.

Á ljósmynd Snyder sést að Amazónurnar eru mun minna klæddar en þegar þær komu fram í Wonder Woman, brynjaðar frá toppi til táar nánast.

Margir létu óánægju sína í ljós á Twitter, og sögðu að búningarnir væru skref aftur á bak, ekki hvað síst af því að nýju búningarnir eru búnir til af Lindy Hemming, en hinir voru hannaðir af karlhönnuði, Michael Wilkinson.

Ýmsir hafa komið Snyder til varnar, og sagt að búningana umdeildu sé einnig að finna í Wonder Woman.

Munurinn sé sá að þær hafi verið léttklæddari á æfingum, en þungbrynjaðri á vígvellinum.

Ekki bætti úr skák þegar skoðuð var önnur ljósmynd sem Snyder deildi þar sem Amazon konurnar sjást við hlið karlkyns hermanna, sem eru brynjaðir yfir allan líkamann. Ef það dugar þeim, afhverju dugar það ekki Amazónunum?,  spyr fólk.

En auðvitað veit fólk ekki fyllilega hvernig þetta verður fyrr en kvikmyndin verður frumsýnd næstkomandi föstudag, 17. nóvember.