Vulko er einnig í Aquaman

Í apríl sl. var sagt frá því að Willem Dafoe myndi leika í DC ofurhetju-hópmyndinni Justice League.  Dafoe fer þar með hlutverk Vulko, íbúa í Atlantis með náin tengsl við konung Atlantis, Aquaman, sem Jason Momoa leikur.

Í nýju viðtali uppljóstraði Dafoe því að Vulko muni ekki láta staðar numið þar, heldur komi hann einnig fram í myndinni um Aquaman, sem kemur í bíó árið 2018.

dafoe

Dafoe er um þessar myndir að kynna mynd Paul Schrader, Dog Eat Dog, sem frumsýnd var um síðustu helgi í Bandaríkjunum, og var við það tilefni spurður út í aðkomu sína að ofurhetjuheiminum og hvernig lífsreynsla það hefði verið að leika undir stjórn Zack Snyder í Justice League.  „Justice League er mjög sérstök af því að það er hópmynd og mín persóna er kynnt þar til sögunnar einkum til að hita upp fyrir Aquaman, þar sem persónan verður í lykilhlutverki,“ sagði Dafoe.

„Þessar myndir [ofurhetjumyndir] eru öðruvísi reynsla. Það er ólík ábyrgð, öðruvísi efniviður og markmið. Það er gaman að geta farið á milli þessara heima. Þeir þjóna mismunandi hvötum.“

Vulko hefur verið hluti af DC teiknimyndasögunum síðan á sjöunda áratug tuttugustu aldarinnar, en hann er vísindalegur ráðgjafi og náinn vinur og trúnaðarmaður Koungsins. Hann hefur komið fram í margskonar sögum, þar á meðal í einu blaði þar sem hann snýst gegn sínum gamla vini, þó það segi ekkert um hvað komi til með að gerast á milli þeirra félaga í Aquaman myndinni …

Við fáum að sjá Vulko og Aquaman 17. nóvember nk. þegar Justice League verður frumsýnd.