Saga rokkara og ljósmyndara á leið á hvíta tjaldið

Bókin Just Kids eftir rokkstjörnuna Patti Smith, er á leið á hvíta tjaldið. Patti vann the National Book Award fyrir bókina í flokki bóka sem ekki eru skáldsögur. Patti Smith skrifar sjálf handritið að myndinni ásamt John Logan, sem skrifaði myndir eins og Aviator og Hugo.

Bókin segir frá sambandi Smith og hins vel þekkta bandaríska ljósmyndara Robert Mapplethorpe, eftir að þau hittust árið 1967 og bjuggu saman í fimm ár áður en þau urðu fræg. Þau fóru síðan hvort sína leið, en héldu áfram að vera góðir vinir og verk Mapplethorpe urðu innblástur fyrir nokkur plötuumslög Smith.

Logan hefur mikla reynslu af ævisögulegum handritaskrifum. Hann skrifaði Aviator, mynd eftir Martin Scorsese um Howard Hughes, og þá skrifaði hann The Last Samurai. Auk þess hefur hann haft hönd í bagga með skrifum á myndum eins og Gladiator og Rango.

Enn er óvíst hver kemur til með að leika Smith og Mapplethorpe, en líklega eru margir áhugasamir um þau hlutverk, enda bæði á goðsagnakenndum stalli í Bandaríkjunum.

Þess má geta til gamans að sýning á ljósmyndum Robert Mapplethorpe stendur yfir til 10. september í galleríi i8 við Tryggvagötu í Reykjavík.