Risaeðlurnar ráðast ekki á heiminn

Í endann á myndinni Jurassic World: Fallen Kingdom er látið að því liggja að risaeðlur myndu ryðjast í hópum yfir lönd heimsins án nokkurra hindrana í næstu Jurassic World kvikmynd, Jurassic World 3, og hrella þar mannfólkið. En samkvæmt leikstjóranum og handritshöfundinum Colin Trevorrow, þá eiga áhorfendur og aðdáendur myndaflokksins ekki að búast við því að risaeðlurnar ráðist á borgir og bæjarhluta, líkt og var í Rise of the Planet of the Apes eða í einhverri Godzilla kvikmynd.

Í raun ættu þessar fregnir ekki að koma mikið á óvart, því fólk hefur nú þegar fengið að sjá eitthvað álíka í The Lost World: Jurassic Park, þegar Gram eðlan, eða T-rex, lék lausum hala í San Diego borg. En fyrst þetta er ekki það sem búast má við, hverju eigum við þá von á?

Colin Trevorrow ræddi nýlega við vefmiðilinn Jurassic Outpost um Jurassic Park seríuna hingað til, og talið barst þá meðal annars að Jurassic World 3. Trevorrow var spurður að því hvort að risaeðlur yrðu meira úti í villtri náttúru í myndinni, eða á þéttbýlum svæðum, borgum og bæjum.

“Ég hreinlega veit ekki hvaða hvati væri í því fyrir risaeðlur að hrella íbúa í borgum. Risaeðlur geta ekki skipulagt sig. Í nútímaum erum við með stórhættuleg villidýr í villtri náttúru sem umkringja borgir. Þau fara ekki inn í þéttbýlið í hópum til að veiða mannfólk. Heimurinn sem ég varð spenntur fyrir er sá þar sem það er hugsanlegt að risaeðlur gætu óvart hlaupið í veg fyrir bílinn þinn í þoku á hliðarvegi, eða ráðast inn á tjaldsvæði í leit að fæðu. Heimur þar sem risaeðlu-atvik eru ólíkleg en möguleg – rétt eins og þegar við erum að pæla í skógarbjörnum eða hákörlum. Við veiðum dýr, við flytjum þau, við ræktum þau, við ráðumst inn á þeirra svæði og við gjöldum fyrir það, en við förum ekki í stríð við þau. Ef svo væri, þá værum við löngu búin að tapa.”

Þetta gæti komið einhverjum sem horfðu á Jurassic World: Fallen Kingdom eftir að kreditlistinn hafði runnið yfir tjaldið, á óvart, en þar sást hópur af fljúgandi risaeðlum, sem lentu á Eiffel turns eftirlíkingunni í Las Vegas. Það sem Trevorrow segir núna er því frekar misvísandi. En hverju má þá búast við?

“Þetta verður endir sögunnar sem hófst fyrir 25 árum síðan, og ég held að aðdáendur verði mjög spenntir þegar þeir sjá hve vel við tengjum myndina við upprunann. Ég veit að Jurassic World var ekki alveg hefðbundið framhald í seríunni – líka útaf nafnabreytingunni – en þetta var framhald. Og það sama má segja um þessa mynd”

Aðalleikararnir Chris Pratt og Bryce Dallas Howard eru þau einu sem staðfest eru sem leikarar í Jurassic World 3.