Joseph Gordon-Levitt sest í leikstjórastólinn

Ef ferill Josephs Gordon-Levitt yrði skoðaður á línuriti í Syrpusögu væri búið að meitla gat í loftið fyrir áframhaldandi rísandi stjörnu hans og Jóakim Aðalönd væri í þann veginn að semja um auglýsingar í hans næstu kvikmynd. Sé stiklað á stóru varðandi ferilskrá Gordon-Levitt – þó ekki nema aðeins upp á gamanið, má nefna eina vinsælustu indie mynd seinustu ára, (500) Days of Summer, sem hlaut fjöldann allan af verðlaunum og jákvæða gagnrýni nánast alls staðar; Inception, sem tók heim fjóra gullkarla og þar sem hann tók þátt í einu flottasta atriðið kvikmyndasögunnar (að mínu mati), 50/50 – og það þarf vart að taka fram að hann mun birtast Íslendingum næst á hvíta tjaldinu þann 25. júlí næstkomandi í The Dark Knight Rises.

En hinn 31 árs ótrúlega viðkunnanlegi leikari er einnig að undirbúa frumraun sína sem leikstjóri, en þess má geta að Joseph þurfti að afþakka lítið hlutverk í nýjustu kvikmynd Quentin Tarantinos, Django Unchained, vegna árekstra í áætlun. Kvikmyndin hefur hlotið nafnið Don Jon‘s Addiction og færir í nútímann söguna um kvennabósann alræmda Don Juan (mæli með googli fyrir þá sem hafa ekki heyrt um hann) og segir frá ferð aðalpersónunnar, hinum klámsjúka sjálfselska skíthæl sem leikin af Gordon-Levitt sjálfum, er hann reynir að verða betri persóna eftir að hafa hitt hina eldri Esther (Julianne Moore), sem er nýbúin að missa eiginmann sinn. Í öðrum hlutverkum er hin ferska Brie Larson úr 21 Jump Street sem mun leika systur persónu Gordon-Levitt, Scarlett Johansson og Tony Danza sem mun leika föðurinn.

Joseph hefur hefur blómstrað mjög sem leikari undanfarin ár og verið slunginn við hlutverkaval og því er ég persónulega mjög forvitin á að sjá hvernig hann mun standa sig í leikstjórastólnum. Ætli einhver sé sammála mér þarna úti?