Cobie Smulders í The Avengers

Þó svo að öll stærstu hlutverkin í hinni væntanlegu The Avengers séu komin á hreint er ekki þar með sagt að leikarar í Hollywood berjist ekki fyrir hin ýmsu aukahlutverk í myndinni. Nú rétt í þessu kom í ljós að leikkonan Cobie Smulders, sem margir þekkja eflaust sem Robin úr þáttunum How I Met Your Mother, sé í þann mund að hreppa eitt slíkt hlutverk.

Eins og flestir vita nú orðið mun The Avengers fjalla um hinar ýmsu ofurhetjur sem hafa og munu prýða hvíta tjaldið, þar á meðal Iron Man og Thor, sem leiða saman hesta sína undir leiðsögn Nick Fury. Fury, sem er leikinn af Samuel L. Jackson, er höfuð leynistofnuninnar SHIELD innan Marvel heimsins. Nýlega kviknaði sá orðrómur að leitað væri að ungri leikkonu í hlutverk hjálparhellu Fury, en Smulders hefur orðið fyrir valinu.

Persónan ber nafnið Maria Hill og ættu hörðustu Marvel-aðdáendur að kannast við nafnið. Hill starfar hjá SHIELD í myndasögunum og tók við af Nick Fury sem stjórnandi þess um tíma. Samkvæmt heimildum mun Hill hinsvegar ekki koma mikið við sögu í myndinni og mun Cobie Smulders einungis leika á móti Jackson. Það kemur ekki algerlega á óvart að leikstjórinn Joss Whedon fái Smulders í The Avengers, en hún var hans fyrsti valkostur þegar stóð til að gera mynd um kvenhetjuna Wonder Woman.

– Bjarki Dagur