Brolin líklegur í Jurassic World

josh brolinBandaríski leikarinn Josh Brolin á nú í viðræðum við Universal kvikmyndaverið um að leika aðalhlutverk í Jurassic World, fjórðu Jurassic Park myndinni, sem nú er í undirbúningi.

Bryce Dallas Howard, Ty Simpkins og Nick Robinson eiga sömuleiðis í viðræðum um að leika í myndinni.

Colin Trevorrow leikstýrir og mun einnig skrifa handrit í félagi við Derek Connolly.

Söguþráðurinn er enn á huldu, en vitað er að Robinson muni leika eldri bróður Simpkins í myndinni.

Steven Spielberg, Frank Marshall og Pat Crowley framleiða.

Eins og fleiri leikarar sem eiga í viðræðum um að leika í myndinni, þá hefur Brolin verið inni í myndinni hjá framleiðendum um þónokkurn tíma, samkvæmt frétt Variety kvikmyndaritsins, eða síðan áður en tökum var frestað þegar endurskrifa þurfti handritið.

Myndin á að koma í bíó 12. júní árið 2015.

Brolin sést næst í bíó í endurgerð leikstjórans Spike Lee á kóreska spennutryllinum Oldboy, og einnig mun hann á næstunni m.a. leika undir stjórn Baltasars Kormáks í Everest.