Jack Sparrow endurræstur hjá Disney

Disney afþreyingarrisinn hyggst endurræsa risaseríuna Pirates of the Caribbean. Samkvæmt frétt kvikmyndasíðunnar Deadline, þá hefur fyrirtækið átt fundi með Deadpool höfundunum Rhett Reese og Paul Wernick, í þessum tilgangi.

Auk þess að skrifa handrit beggja Deadpool myndanna, þá skrifuðu þeir Rheese og Wernick handritið að Zombieland og 6 Underground, spennumyndarinnar sem stórmyndaleikstjórinn Michael Bay er að gera fyrir Netflix með Ryan Reynolds í aðalhlutverkinu.

Peningamaskínan Jerry Bruckheimer mun áfram vera aðalframleiðandi seríunnar, en enn er óvíst hvaða leikarar myndu snúa aftur. Sögusagnir hafa verið í vikunni um að Johnny Depp muni hugsanlega ekki snúa aftur í hlutverki Captain Jack Sparrow, en ekkert er þó staðfest um slíkt á þessari stundu. Depp hefur leikið persónuna í fimm myndum á síðustu 15 árum. Tekjur myndanna til þessa nema samtals 4,5 milljörðum bandaríkjadala, eða litlum 543 milljörðum íslenskra króna á gengi dagsins í dag.

Nýjasta Pirates myndin heitir Dead Men Tell No Tales, og var frumsýnd árið 2017 með leikstjórann Joachim Rønning við stýrið.