Travolta falsar Monet – Stikla

Fyrsta stikla og plakat úr nýju John Travolta myndinni The Forger er komin út. Um er að ræða dramamynd sem verður fyrst í boði fyrir áskrifendur DirecTV sjónvarpsstöðvarinnar frá og með 26. mars nk., en fer síðan í kvikmyndahús og á VOD leigur 24. apríl.

Upphaflega átti á frumsýna myndina á síðasta ári, en því var frestað.

Leikstjórinn, Philip Martin, tekur hér óvenjulegan vinkil á samvinnu fjölskyldumeðlima, en afi, faðir og sonur, slást í lið og fremja rán aldarinnar.

forger

Sagan segir frá besta listaverkafalsara í heimi, sem John Travolta leikur, sem gerir samning við glæpasamtök um að hann komist úr fangelsi í skiptum fyrir rán sem talið er óframkvæmanlegt. Hann þarf að falsa málverk eftir Claude Monet, stela upprunlega verkinu úr listasafni, og skipta því út fyrir fölsunina, sem á að vera svo fullkomin að engan gruni neitt. Faðir hans, sem Christopher Plummer leikur, og sonur hans, sem Tye Sheridan leikur, hjálpa til.

Jennifer Ehle, Anson Mount, Abigail Spencer og Marcus Thomas leika einnig í myndinni. Handritið er eftir Richard D’Ovidio (The Call, The Damned).

Kíktu á stikluna hér fyrir neðan: