Chan bjargað úr aurskriðu

Hasarleikarinn Jackie Chan segir að hann og aðrir í tökuliði nýjustu kvikmyndar hans Project X, hafi þurft björgunar við, eftir að hafa lent í lífshættulegri aurskriðu.

Chan sagði að veðrið á tökustað hefði versnað til muna á nokkrum dögum, sem olli þessum náttúruhamförum.

Chan minntist ekki á hvar þessi tökustaður er, en talið er að hann sé einhversstaðar í suðvesturhluta Kína, þar sem mikið hefur verið um hvassviðri og aurskriður undanfarið.

Í færslu á kínverska Twitter og öðrum þarlendum samfélagsmiðlum segir Chan að bjarga hafi þurft honum og öðru fólki eftir að aurskrifan hreif með sér farartæki og vagna á staðnum. Hann segir að þau hafi orðið hrædd þar sem að hamfarirnar gerðust svo snögglega. Allir sluppu þó ómeiddir úr atvikinu.

„Í dag byrjuðum við að taka upp úti. Veðrið snerist skyndilega, og tökuliðið lenti í risastórri aurskriðu! Nokkrir bílar festust í aurnum. Margir urðu hræddir þar sem þetta gerðist svo skyndilega. Sem betur fer komu stórir bílar til bjargar, og hjálpuðu til við að draga bílana okkar á öruggan stað.“

Jackie þakkaði einnig björgunarfólkinu fyrir snör handtök. Hann baðst einnig afsökunar, og sagði að héðan í frá myndu hann og framleiðendur huga betur að veðri.

„Ég vil nota tækifærið til að færa mínar dýpstu þakkir til björgunarfólksins. Og ég bið alla í tökuliði afsökunar sem urðu hræddir vegna aurskriðunnar. Framleiðsluteymið okkar mun læra af þessari reynslu; og skoða veðurspána mun betur, gera okkar besta til að vernda allt starfsfólkið, og tryggja öruggt starfsumhverfi!“

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Jackie Chan kemst í hann krappan. Árið 2014, þegar hann var við tökur á Skiptrace, þá drukknaði kvikmyndatökumaðurinn Chan Kwok-hung, þegar bát með honum og sjö öðrum úr tökuliði hvolfdi undan ströndu Lantau eyju í Hong Kong.

Vöðvatröllið og grínleikarinn John Cena bættist nú nýverið í leikhóp Project X, en óvíst er hvort hann hafi lent í skriðunni. Þá var tilkynnt í vikunni að Amadeus Serafini léki í myndinni. Serafini leikur bandarískan málaliða, en Chan leikur kínverskan starfsmann öryggisfyrirtækis, sem er að reyna að bjarga starfsmönnum í olíuvinnslu, sem ráðist hefur verið á.

Cena leikur sjóliða, sem slæst í lið með Chan.

Hér fyrir neðan má lesa færslu Chan í heild sinni: