Joaquin Phoenix hjálpar ekki síðustu mynd River

Ég skrifaði um það fyrir stuttu að George Sluizer, leikstjóri hinnar ókláruðu Dark Blood, sem River Phoenix var að vinna að er hann lést úr ofneyslu eiturlyfja, ætlaði sér að klára myndina. 18 ár eru síðan tökur fóru fram, en þeim var næstum lokið er harmleikurinn átti sér stað. Sluizer sagðist hafa talað við Phoenix fjölskylduna og var að vonast eftir því að bróðir River, leikarinn Joaquin Phoenix, myndi hjálpa til með eftirvinnsluna, og ljá myndinni rödd sína í „voice-over“, sem persónan sem River lék.

Svo, virðist sem leikstjórinn hafi talað af sér, því nú hefur fjölskyldan gefið út yfirlýsingu sem þvertekur fyrir það. „Þrátt fyrir fullyrðingar George Sluizer um að hann hafi verið í sambandi við fjölskyldu River Phoenix varðandi það að gefa út síðstu mynd hans, hafa Joaquin Phoenix og fjölskylda hans ekki verið í sambandi við leikstjórann, og munu ekki heldur taka þátt á neinn hátt“.

Ekki fylgir sögunni hvort þetta mun hafa einhver áhrif á plön Sluziers, eða hvort hann mun halda ótrauður áfram með að setja myndina saman án hjálpar fjölskyldunnar.

Bræðurnir á góðri stundu