Búinn að ákveða hvernig þakkarræðan byrjar

matthew_mcconaughey_290x402Bandaríski leikarinn Mathew McConaughey hefur undanfarið verið að hasla sér völl meðal þeirra bestu í geiranum og vann m.a. Golden Globe-verðlaun fyrir hlutverk sitt í Dallas Buyers Club á dögunum. Leikarinn hefur einnig farið á kostum ásamt Woody Harrelson í þáttunum True Detective.

Jimmy Kimmel ræddi við leikarann í gærkvöldi og var sannfærður um að McConaughey muni vinna Óskarsverðlaun fyrir hlutverk sitt í Dallas Buyers Club, barst því umræðan að þakkarræðum og hvort McConaughey gæti mögulega toppað ræðuna sína á Golden Globe-verðlaununum.

McConaughey svaraði því með að ræðan myndi væntanlega byrja á sömu orðum og hann lét út úr sér á Golden Globe-verðlaununum og í fyrstu kvikmyndinni sinni, Dazed and Confused.

Búist er við því að leikarinn muni berjast við Leonardo DiCaprio um styttuna góðu og hafa hvorugir unnið Óskarsverðlaun á ferlinum. Er þetta í fyrsta skipti sem McConaughey er tilnefndur til Óskarsins en aftur á móti hefur DiCaprio verið tilnefndur fimm sinnum.