Kvörtuðu mest yfir Red Sparrow

Njósnatryllirinn Red Sparrow, með Jennifer Lawrence í aðalhlutverki, var sú mynd sem mest var kvartað yfir í Bretlandi á síðasta ári. Þetta kemur fram á vef The Independent.

Samkvæmt Breska flokkunarráðinu ( e. British Board of Film Classification (BBFC) ) þá bárust 64 kvartanir vegna myndarinnar, en allar voru þær vegna þess að menn töldu að aldurstakmarkið 15 ára væri of lágt vegna þess hve ofbeldisfull myndin er.

BBFC sagði framleiðendum að þeir þyrftu að klippa út eitt atriði sérstaklega, til að dempa ofbeldi „hlaðið kvalalosta og kynferðislegum misþyrmingum“, og framleiðendur hefðu svarað því kalli.

Brjáluð kanína

Næst flestar kvartanir bárust vegna teiknimyndarinnar Peter Rabbit, eða 50 talsins. Atriðið er þar sem kanínan dúndrar brómberjum í aðal manneskjuna í myndinni, Tom McGregor, vitandi að hann hefur ofnæmi fyrir berjunum, og jafnvel grýtti hún einu beri beint í munn hans – þar til hann neyddist til að nota EpiPen ofnæmispenna.

BBFC kvaðst ekki hafa fengið neinar kvartanir vegna atriðisins eftir að myndin var frumsýnd í Bretlandi, og hafnaði kröfum um að atriðið hvetti til stríðni.

„Atriðið sem um ræðir … [er] hluti af átökum sem eru sífellt í gangi á milli kanínunnar og eiganda grænmetisgarðs,“ segir í skýrslu BBFC. „Brómberjaárásin er bara eitt af þeim klækjabrögðum sem kanínurnar nota til að sigra óvin sinn, sem er sjálfur að reyna að klófesta þær, gefa þeim rafstuð, drekkja þeim eða sprengja þær í loft upp.“

Ástaratriði

Nokkrar kvartanir bárust einnig vegna stiklunnar úr samkynhneigða unglingarómansinum Love, Simon, en þar taldi fólk að hvernig fjallað væri um ástarsamband samkynhneigðra sæmdi ekki PG aldursmerkingunni. Var þeim kvörtunum hafnað af BBFC.