Bardem boðið hlutverk í Bond

Óskarsverðlaunaleikaranum Javier Bardem hefur verið boðið hlutverk í næstu Bond myndinni, samkvæmt Deadline. Samkvæmt síðunni er hlutverkið mjög stórt og gæti vel verið að Bardem yrði sá næsti í langri línu af skúrkum sem tekist hafa á við njósnara hennar hátignar.

Næsta Bond-mynd, sú 23. í röðinni, verður leikstýrð af Sam Mendes og mun Daniel Craig að sjálfsögðu snúa aftur sem spæjarinn eitursvali. Ef svo vill til að Bardem leiki skúrkinn í myndinni yrði hann annar Óskarsverðlaunaleikarinn sem reyndi að stúta James Bond, en Christopher Walken fór með það hlutverk í A View to A Kill frá árinu 1985. Bardem hlaut Óskarsverðlaunin fyrir kvikmyndina No Country for Old Men, en hann er tilnefndur til Óskarsins aftur í ár, fyrir myndina Biutiful.

– Bjarki Dagur