Statham slæst við risahákarla

jason_stathamJason Statham hefur skrifað undir samning um að leika í hákarlamyndinni Meg.

Myndin fjallar um tvo menn, djúpsjávarkafarann Jonas Taylor og félaga hans Masao Tanaka,  sem þurfa að stöðva torfu af risastórum Megalodon hákörlum ( forsögulegir risahákarlar sem gátu náð allt að 18 metra lengd ) sem hafa náð að lifa af í gegnum aldirnar með því að dvelja í Mariana skurðinum, og hafa nú tekið stefnuna á strandlínu Kaliforníu.

Þeim félögum gengur ekkert alltof vel að temja skepnurnar, og því verður allt annað en öruggt að fara á ströndina…

Reyndar herma nýjustu fréttir af myndinni að búið sé að skipta Kaliforníu út sem sögusviði fyrir Kína, sökum aðgengis að fjármagni í Kína.

Myndin er gerð eftir skáldsögu Steve Alten, MEG, sem kom í búðirnar árið 1997, en Disney kvikmyndaverið keypti kvikmyndaréttinn að bókinni það sama ár. Myndin var þó sett upp í hillu þegar djúpsjávarmyndin Deep Blue Sea náði ekki nægri hylli bíógesta.

Nú er hinsvegar öldin önnur. Hákarlar og allskyns risaskepnur eru í tísku.

Leikstjóri er Jon Turteltaub og handrit ritar Dean Georgaris.

Statham er væntanlegur næst á hvíta tjaldið í Mechanic: Resurrection, sem frumsýnd verður 26. ágúst nk. auk þess sem hann leikur í Fast and Furious 8, sem kemur í bíó á næsta ári.