Damon sáttur við endurnýjun

Bandaríski leikarinn Matt Damon segir að hann láti sér í léttu rúmi liggja, þó honum verði einn daginn skipt út fyrir yngri leikara í Bourne njósnamyndunum. Damon lét þessi orð falla í Suður Kóreu, við frumsýningu nýjustu Bourne myndarinnar, Jason Bourne. 

matt damon bourne

„Ég er alveg rólegur yfir því þó að yngri leikari muni taka við af mér einn daginn sem Jason Bourne,“ sagði Damon. „Það gerist fyrir alla, og þeir eru alltaf að endurræsa þessa hluti, og það er í góðu lagi.“

Damon, sem nú er 45 ára, sagði að sér hefði fundist erfiðara nú að leika í hasaratriðum, en þegar hann var að taka upp fyrstu Bourne myndina, 29 ára gamall.

„Það er erfiðara nú þegar maður er 45 ára en þegar maður var 29 ára, en þú þarft samt ennþá að hlaupa eins og fætur toga. Það var áskorun, en að fá að vinna aftur með fólkinu var frábært.“

Árið 2012 var tilraun gerð til að halda áfram með seríuna með nýjum leikara í aðalhlutverkinu, Jeremy Renner. En sú mynd, The Bourne Legacy, þénaði rétt aðeins meira en upprunalega myndin frá árinu 2002, og um helming þess sem The Bourne Ultimatum frá árinu 2007 þénaði.

Jason Bourne verður frumsýnd 27. þessa mánaðar hér á Íslandi.