Stórar Arrested Development fréttir!

Síðan að hinir ranglátu sjónvarpsguðir ákváðu að Arrested Development ættu ekki skilið að lifa lengur en í þrjár grátlega stuttar seríur árið 2005, höfum við hundtryggir aðdáendur þáttanna beðið eftir bíómyndinni sem okkur var lofað í síðasta þættinum. Á þessum löngu árum hafa aðstandendur þáttanna verið spurðir ótal sinnum um fréttir, hvert einasta skipti sem þeir láta sjá sig á rauða dreglinum, og svörin hafa alltaf verið svipuð. Myndin er á leiðinni, okkur langar öll að gera hana. Og svo gerist ekkert.

Merkilegur atburður, „A Bluth Family Reunion“ átti sér stað um helgina, þegar allur leikhópurinn kom saman á ráðstefnu The New Yorker, og töluðu saman fyrir framan áhorfendur í einn og hálfan tíma. Þetta var í fyrsta skipti í 6 ár sem þau hittust öll og fyrir utan að vera stórskemmtilegt að horfa á komu nýjar upplýsingar fram. Hægt er að fara á Facebook síðu The New Yorker, „Like-a“ þá, og þá opnast fyrir að horfa á þessar 90 mínútur af gulli. Alveg þess virði í minni bók.

En nýju fréttirnar! Mitch Hurwitch skapari þáttanna er búinn að vera að vinna að handriti myndarinnar alltof lengi, og var farinn að sjá að það þyrfti mikinn tíma til þess að kynna til sögunnar hvað hver persóna væri búin að vera að gera í fimm ár. Þó að það væru ekki nema fimm mínútur á mann, væri myndin hálfnuð þegar allir myndu hittast aftur! Þetta vonast þau nú til að leysa með því að búa til 10 þátta mini-seríu, og kvikmynd sem fylgir á eftir. Þættirnir yrðu ekki með hefðbundnu sniði, heldur myndi hver þáttur fylgja einni persónu, og daglegu lífi hennar 5 árum seinna. Þó myndu að sjálfsögðu einhver tengsl vera á milli þeirra, en í fyrsta atriðinu í myndinni myndu svo allir hittast aftur í fyrsta skipti. Leikhópurinn er búinn að taka frá sumarið 2012 í tökur, og á myndbandinu virtust allir fullir vonar um að þetta væri loksins að fara að gerast.

Ég hvet alla sem eiga 90 lausar mínútur að horfa á myndbandið, ef þú hefur ekki séð þættina, horfðu á þá fyrst. Hvað heldur fólk annars, er búið að hrópa „úlfur, úlfur!“ of oft, eða gera þessar fréttir ykkur spennt?