Skítur frá Skotlandi – Ný stikla

Eins og einhverjir vita sjálfsagt þá er leikarinn James McAvoy ættaður frá Skotlandi.  Nýverið hefur hann verið að rækta sinn skoska bakgrunn með því að leika í Shakespeare leikritinu Macbeth á sviði, en hann gengur þó enn lengra í myndinni Filth, eða Skítur, þar sem hann leikur skoskan hrotta frá Glasgow.

Þessi persóna er ofbeldisfullur, drykkfelldur eiturlyfjafíkill að nafni Bruce Robertson, sem jafnframt er aðalsöguhetjan í samnefndri bók eftir Irvine Welsh, sem kvikmyndin er gerð eftir.

Kíktu á stikluna hér fyrir neðan, sem er bönnuð innan 18:

Eins og sést í stiklunni lítur þetta út fyrir að vera rússibanareið, fyllerí, drykkja, dóp og kynlíf út og í gegn – minnir á myndina XL eftir Martein Þórsson!

Sagan í myndinni segir frá McAvoy sem er spillt ofstækisfull lögga sem sækist eftir því að fá stöðuhækkun, og er ákveðinn í því að gera allt sem hann getur ( sem í hans tilfelli er þónokkuð ) til að leggja stein í götu keppinautar hans Ray Lennox ( sem leikinn er af Jamie Bell ), og annarra keppinauta, þ.e. þegar hann getur tekið sér frí frá því að drekka, stunda kynlíf og nota eiturlyf, sem hann gerir mikið af.

Helstu leikarar aðrir eru Eddie Marsan, Jim Broadbent, Joanne Froggatt, Shirley Henderson, Kate Dickie og Imogen Poots.

Leikstjóri og handritshöfundur er Jon S. Baird.

Myndin kemur í bíó í september.