Bond aftur í Rússaglímu

Auglýsingar fyrir áheyrnarprufur fyrir kvikmyndir geta gefið ýmsar hnýsilegar upplýsingar um smáatriði í söguþræði viðkomandi mynda. Nú nýlega voru birtar auglýsingar fyrir áheyrnarprufur fyrir næstu James Bond kvikmynd, og þar má glöggt sjá að við getum átt von á að sjá Bond kljást við rússneska þorpara í myndinni, en slíkt hefur ekki gerst í tuttugu ár.

Næsta mynd um 007, njósnara hennar hátignar, verður með Daniel Craig í hlutverki Bond.

Aðrir Rússar sem Bond hefur átt í höggi við eru til dæmis þau Rosa Klebb, í From Russia with Love

og General Orlov úr Octopussy.

Framleiðendur hafa nú birt auglýsingu þar sem auglýst er eftir karlleikara á aldrinum 30-60 ára, frá Rússlandi eða Eystrasaltslöndunum. Hann þarf að búa yfir „persónutöfrum, vera skapandi, kaldur og hefnigjarn“.

Einnig er leitað að leikkonu frá Rússlandi eða Eystrasaltslöndunum sem þarf að vera mjög „árásargjörn, sterk og með bardagahæfileika.“

Persónu hennar er lýst sem „gáfaðri, hugrakkri, leiftrandi og heillandi, hún er klár, útsjónarsöm, og ráðagóð.“

Parið virðist einnig vera í slagtogi við leigumorðingja af Maori ættum, sem þarf að búa yfir bardagahæfni, og vera „miskunnarlaus og tryggur.“

Eins og fyrr sagði hefur Bond reglulega átt í höggi við illmenni úr austrinu, en sá síðasti sem varð fyrir barðinu á hinum breska leyniþjónustumanni var Victor „Renard“ Zokas, fyrrum KGB leyniþjónustumaður, og síðar hryðjuverkamaður, sem var leikinn af Robert Carlyle í The World is Not Enaugh frá árinu 1999.

Tökur kvikmyndarinnar, sem er í leikstjórn Danny Boyle, hefjast í desember nk.

Frumsýning er áætluð í október á næsta ári.

Vinnuheiti kvikmyndarinnar er Bond 25. Talið er að hin enska Dua Lipa muni syngja Bond lagið í myndinni að þessu sinni.