Barinn Gyllenhaal missir forræðið – Fyrsta stikla

Fyrsta stiklan úr nýju Jake Gyllenhaal-boxmyndinni, Southpaw, kom út í dag sunnudag, en fjórir mánuðir eru nú í frumsýningu myndarinnar. Síðasta mynd leikarans sem sýnd var hérlendis, Nightcrawler, var stórgóð, og því bíða væntanlega margir spenntir eftir þessari.

Í stiklunni fáum við að sjá fullt af bardagaatriðum þar sem Gyllenhaal er ýmist barinn í buff, eða slær sjálfur duglega frá sér.

jake gyllenhaal southpaw

Eins og sést í stiklunni og á meðfylgjandi mynd er Gyllenhaal vöðvastæltur og skorinn, en hann bætti á sig 7 kílóum fyrir hlutverkið.

Myndin er drama sem fjallar um hnefaleikara sem missir forræði yfir dóttur sinni, eftir að líf hans fer í hundana í kjölfar slyss. Hlutirnir taka betri stefnu þegar hann fær hjálp frá fyrrum hnefaleikamanni, sem Óskarsverðlaunaleikarinn Forest Whitaker leikur.

Hlestu leikarar ásamt Gyllenhaal eru þau Rachel McAdams, Curtis “50 Cent” Jackson, Rita Ora, Naomie Harris og Victor Ortiz.

Kíktu á stikluna hér fyrir neðan:

Myndin verður frumsýnd í Bandaríkjunum 31. júlí.