Jackass 3.5 verður sett á netið

Johnny Knoxville og hinir asnakjálkarnir í Jackass hópnum ætla að endurtaka leikinn frá því árið 2007, og fylgja nýjustu kvikmynd sinni Jackass 3D eftir með mynd sem unnin er úr „afgöngum“ sem komust ekki á hvíta tjaldið í Jackass 3D. Myndin verður kölluð Jackass 3.5.
Framleiðendur myndarinnar, Paramount Pictures og MTV Films, tilkynntu í dag þriðjudag, að Jackass 3.5 verði frumsýnd eingöngu á netinu, en í mars komi myndin síðan út í fullri lengd. Ekki hefur verið tilkynnt nákvæmlega hvar hægt verður að horfa á myndina.
Í myndinni verður að finna aukaatriði úr Jackass 3D, en sú mynd hefur þénað einar 116 milljónir Bandaríkjadala í miðasölunni, frá því hún var frumsýnd í október sl.
Árið 2007 var myndin Jackass 2.5 frumsýnd, en hún fylgdi í kjölfarið á Jackass Number Two. Á þeim tíma var sagt að myndin væri sú fyrsta sem væri sýnd yfir breiðband á vegum stórs kvikmyndavers. Jackass 2.5 var streymt í viku ókeypis af Blockbuster Inc. vídeóleigunni, og síðan var hægt að hala henni niður eða kaupa á DVD.