Leikstjórar tala um ofurhetjur

Þeir Shane Black (Iron Man 3) og James Mangold (The Wolverine) gáfu báðir ítarleg viðtöl á dögunum um ofurhetjumyndirnar sem þeir eru nú að undirbúa með fullum krafti. Þó að hvorugur þeirra færi langt með að lýsa plotti myndanna, gáfu þeir báðir góðar hugmyndir um hvert markmið myndanna er.

Byrjum á Shane Black. Hann er gera sína aðra kvikmynd sem leikstjóri, sú fyrsta var Kiss Kiss Bang Bang (2005), sem skartaði Robert Downey Jr. og Val Kilmer í aðalhlutverkum. Hann á hinsvegar að baki farsælan feril sem handritshöfundur hasarmynda, allt frá því að hann skrifaði Lethal Weapon (1987) 23 ára gamall. Það kom því talsvert á óvart að hann er ekki að skrifa handritið að Iron Man 3, heldur var Bretinn Drew Pierce fenginn í það hlutverk. Black segir samstarfið þó ganga vel: „Drew er frábær. Hann býr í London, en er fluttur til Bandaríkjanna. Ég og hann förum og skrifum saman og komum síðan með síðurnar til Downey, og þetta er bara frábært samstarf. Mér hefur aldrei gengið eins vel að skrifa, þó að reyndar hafi ég verið dauðhræddur first, en síðan varð þetta ótrúlega skemmtilegt. Þessi gæji, Drew, lætur mig brosa. Hann gerir ferli sem getur verið erfitt og yfirþyrmandi svo mikið léttara.“

Spurður hvort að „Demon in a Bottle“ sagan, þar sem Tony missir sig í alkóhólisma verði notuð í myndinni svarar hann: “ Nei, ef við færum þangað – þetta er hlutur af karakter Tony, en ég held að ef við færum þangað, þá þyrftum við virkilega að fara þangað. Þá yrði myndin að fjalla um það, það átak sem það er að jafna sig af alkóhólisma er heil bíómynd. Ég meina, ég vil hafa myndina dökka og áhugaverða og allt það, en ég held ekki að við munum fara það langt að glíma við fall Tony í geðveiki alkóhólsins.“

Loks er hann spurður að því hver hann vonar að tónn myndarinnar verði, og áhrif hennar á aðrar ofurhetjumyndir: „Ég vona að það verði endurkoma til þeirrar gerðar af hasarmyndum sem ég man svo fallega eftir, minni tilviljanakennd eyðilegging og meiri trillir – minni hasar, meiri spenna. Meira persónudrifin spenna sem lætur þig vilja vita hvað kemur fyrir þennan náunga, ekki hvað kemur fyrir bygginguna fyrir aftan þennan náunga. Það er ákveðin afturhvarfshyggja sem ég aðhyllist, sem felst í að taka hugmyndina um nútímatækni og kvikmyndagerð og blanda því við það sem spennumyndir frá áttunda áratugnum höfðu fram að færa, þannig að hún verði spennandi og aðgengileg í stað þess að vera bara hávær og pirrandi. Það er mín stefna.“ Þetta og miklu meira er að finna í góðu viðtali sem Comicbookresources tók við kallinn.

Þá er það James Mangold. Eins og allir vita var upphaflega tilkynnt að Darren Aronofsky myndi gera myndina, og Mangold viðurkennir að hann hafi verið hikandi um að fylgja í fótspor hans. „Þegar Darren hætti, var ég á kafi í öðrum hlutum og þeir stungu upp á þessu við mig, þá íhugaði ég það ekki einu sinni. Hver myndi vilja taka við þessu, fylgja Darren, og heyra allan fjölmiðlastorminn um það. Nokkrir mánuðir liðu og ég hafði ekki einu sinni lesið handritið, en þegar þeir komu aftur til mín tékkaði ég á þessu, og æsingurinn hafði smám saman þagnað. Það sem ég sá var mjög lofandi efni, áhugaverð persóna sem er leikin af góðum vini mínum, Hugh Jackman.“ (Þeir unnu áður saman við Kate & Leopold árið 2001).

Mangold sagði eftirfarandi um tækifærin sem þessi mynd býður upp á. „Þetta er ævintýri sem fylgir þessari einstöku persónu í einstöku umhverfi. Yfir helmingur persónanna í myndinni tala Japönsku, þetta er frekar eins og útlend ofurhetju mynd sem er jafn mikið drama og rannsóknarlögreglusaga og „Film noir“ með hasaratriðum frekar en hefðbundin Hollywood sumarmynd. Ég held að ég hafi tekið að mér myndina að hluta vegna þess að þetta er ekki hefðbundin ofurhetjumynd. Þetta er ekki byrjunarsaga, svo ég frjáls frá þeirri formúlu, og þetta er ekki heldur „bjarga heiminum mynd“ eins og þær flestar eru. Þetta er persónudrama, sem á meira sameiginlegt með The Outlaw Josey Wales og Chinatown, heldur en þessari hefðbundnu „munu Wolverine og félagar hans bjarga heiminum frá þessu kjarnorkuvopni?“ spurning.“

Mangold heldur áfram: „Frekar en annað er þetta persónudrama, sem spyr áhugaverðra spurninga um hvað það þýðir að vera ódauðlegur. Hvernig er að lifa að eilífu, þegar þú munt að endingu tapa öllum sem þú hefur elskað? Annað hvort sérðu þau drepin, eða þú tapar þeim með aldrinum. Hvernig er byrðin að bjarga mannkyni í gegn um öll mistök þess aftur og aftur. Hvaða áhrif hefur það á hann að lifa þessu Frankenstein-íska eilífa lífi? Það er mikið af dramatískum spurningum sem við ætlum að svara ásamt því að hafa hugvitssöm hasaratriði.“ Að lokum segir hann: „Ég held að við munum gera Wolverine myndina sem fólk hefur beðið eftir, sem sýnir myrkari og erfiðari hliðar persónunnar, hans eigin sögu, sem var kannski ekki mögulegt í upprunasöguni sem þau gerðu, eða náttúrulega í hinum myndunum þar sem hann deilir svo miklum tíma með öllum hinum X-mönnunum. Viðtal The Playlist við Mangold má finna hér.

Þannig að við eigum von á tveimur ofurhetjumyndum sem ætla sér að vera allt annað en hefðbundnar ofurhetjumyndir á næstu árum. Hvernig leggst þetta í fólk?