Brot úr The Avengers frumsýnt á D23 Expo

Leikarar úr ofurhetjumyndinni The Avengers, sem væntanleg er á næsta ári, komu fram á D23 Expo, Disney Fan Fest, í Kaliforníu í gær, við fagnaðarlæti 2.500 gesta sem fengu að sjá stutt vídeó úr myndinni.

Tom Hiddleston, Colbie Smulders, Jeremy Renner, Scarlett Johannsson, Chris Hemsworth og Robert Downey Jr., sem uppskar standandi lófaklapp, komu á sviðið í Anaheim ráðstefnuhöllinni.

Það var ekki mikið um spjall, að því er segir í frétt frá The Hollywood Reporter, en í stað þess var sýnt stutt brot úr myndinni, en enn eru tvær vikur í að tökum ljúki.

Í brotinu sást Loki, sem leikinn er af Tom Hiddleston, læstur inni í rammgerðum klefa, en hjá honum stendur persóna Samuel L. Jackson, Nick Furey, en Loki er að reyna að komast yfir orku. Senan endar með myndbrotum af hinum ýmsu ofurhetjum sem við sögu koma í myndinni, þar sem þær eru að hlusta á samtalið milli Loka og Furey.

Í lok myndbrotsins kom röð af stuttum og spennuþrungnum myndum af hetjunum og endaði með rifrildi á milli Loka og Tony Stark, sem Robert Downey Jr. leikur, þar sem Loki segist hafa heilan her sem er tilbúinn til bardaga. „I have a Hulk!“ segir Stark á móti, og áhorfendur í ráðstefnuhöllinni fögnuðu ákaft, að því er segir í frétt The Hollywood Reporter.