Börn sáu Insidious 3 í stað Inside Out

Nafnaruglingur varð þegar börn á leikskólaaldri sáu fyrir mistök byrjunina á hryllingsmyndinni Insidious 3 í stað teiknimyndarinnar Inside Out í kvikmyndahúsi í Ohio í Bandaríkjunum um síðustu helgi.

insidious 3

Börnin urðu að vonum dauðhrædd og grétu hástöfum í kvikmyndasalnum, enda áttu þau von á hugljúfri og fyndinni teiknimynd. Í stað þess sáu þau börn sem voru bundin og myrt, áður en foreldrum þeirra tókst að koma þeim út úr salnum, samkvæmt frétt The Guardian.

„Ég fékk peningana endurgreidda,“ skrifaði Jazmyn Moore á Facebook-síðu dagblaðs frá Ohio. „En skaðinn er skeður. Börnin eru logandi hrædd og eru alltaf að spyrja spurninga.“

Insidious 3 kom út í Bandaríkjunum 5. júní og skömmu síðar var Inside Out frumsýnd. Sú síðarnefnda hefur þénað rúmlega tvöfalt meira í miðasölunni en hryllingsmyndin.