Ný íslensk kvikmynd frumsýnd – gerist á 9. áratug síðustu aldar

Ný íslensk kvikmynd, Á annan veg, í leikstjórn Hafsteins G. Sigurðssonar verður frumsýnd 2. september í Smárabíói, Háskólabíói og viku seinna, í Borgarbíói Akureyri.
Í tilkynningu frá framleiðendum myndarinnar segir hér sé á ferðinni meinfyndin og mannleg kómedía. „Á annan veg er meinfyndin og mannleg kómedía sem segir frá tveimur ungum mönnum sem starfa við vegavinnu á afskekktum fjallvegum á 9. áratugnum. Þeir handmála merkingar á malbik og reka niður tréstikur í vegkanta og hafa ekkert nema hvorn annan og tilbreytingalausa vinnuna – sem væri kannski allt í lagi ef þeim líkaði betur hvor við annan.
En eftir að lífið tekur óvænta stefnu læra þeir að meta félagsskap hvors annars og þróa með sér vináttu – enda báðir á krossgötum í lífinu.“

Eighties mynd

Leikstjórinn og annar aðalleikaranna, Sveinn Ólafur, sem einnig skrifaði handritið ásamt Hafsteini, voru í viðtali á Rás 2 í morgun þar sem þeir sögðust hafa tamið sér allskonar frasa sem voru í gangi á níunda áratugnum, en myndin gerist á þeim tíma. Frasar eins og Speisað, getnaðarlegur, fríkað og fleiri frasar séu notaðir til að gera tímann sem myndin gerist á trúverðugan. Í viðtalinu sagði leikstjórinn einnig að þeir hefðu valið þetta tímabil fyrir myndina til að geta einangrað persónurnar meira þar sem þær eru að vinna úti á landi, en á þessum tíma eru GSM símar ekki komnir, til dæmis. Einnig sagði hann að á þessum tíma sé malbikið að ryðja sér meira og meira til rúms á Íslandi, en það hafi ekki komið hingað fyrr en upp úr 1970 að neinu ráði, en félagarnir vinna við að gera við vegi.

Keppir í San Sebastian

Kvikmyndahátíðin í San Sebastian hefur boðið Á annan veg til þátttöku á hátíðinni í ár en hún fer fram 16. – 24. september á Spáni. „Myndin keppir í flokki sem er tileinkaður fyrstu eða annarri mynd leikstjóra og er hún ein af fimmtán myndum sem tilnefndar eru til „Kutxa – New Directors Award.“ Til nokkurs er að vinna þar sem á ferðinni eru hæstu peningaverðlaun sem um getur á nokkurri kvikmyndahátíð í heiminum en í boði eru 90.000 evrur sem skiptast jafn milli leikstjóra sigurmyndarinnar og spænsks dreifingaaðila sem sér um að dreifa myndinni í kvikmyndahús á Spáni.“

Í helstu hlutverkum eru þeir Sveinn Ólafur Gunnarsson, Hilmar Guðjónsson og Þorsteinn Bachman. Hafsteinn leikstýrir myndinni eftir eigin handriti og sögu eftir sig og Svein Ólaf. Á annan veg er framleidd af Mystery Ísland og Flickbook Films.

Smellið hér til að hrofa á trailerinn fyrir myndina.