Grænt ljós á Contraband Baltasars – á förum til New Orleans og Panama

Fréttablaðið greinir frá því í dag að leikarinn og leikstjórinn Baltasar Kormákur sé á förum til New Orleans í sex mánuði til að taka nýjustu mynd sína Contraband, sem er endurgerð á Reykjavík Rotterdam. Í myndinni er heill her stórstjarna, og má þar helst nefna Mark Wahlberg og Kate Beckinsdale. Myndin á að kosta fjóra milljarða króna í framleiðslu, og því er ljóst að Baltasar er að stimpla sig rækilega inn í Hollywood. Mynd hans Inhale, sem forsýnd var hér á landi um síðustu helgi, er jafnframt stjörnum prýdd. Það er Universal kvikmyndaverið sem framleiðir myndina, og segir Fréttablaðið að þetta sé stærsti samningur sem íslenskur kvikmyndaleikstjóri hefur náð.

„Það er komið endanlegt grænt ljós á myndina, ég flyt út á sunnudag og verð í New Orleans og Panama næsta hálfa árið. Vonandi geta konan og börnin komið og verið eitthvað með mér úti. Ég fæ smá jólafrí og klára þá síðustu tökurnar af Djúpinu,“ segir Baltasar Kormákur í samtali við Fréttablaðið.

Í samtalinu er Baltasar greinilega ánægður með að hafa Wahlberg funheitan innanborðs og segir að jafnvel sé von á fleiri stjörnum til að leika í myndinni: „Þetta virðist ætla að smella ansi vel og það eru fleiri nöfn að detta inn núna,“ segir leikstjórinn í Fréttablaðinu.