Fifty Shades of Grey orðrómar

fiftyshadesSkáldsagan Fifty Shades of Grey er sú fyrsta í þríleik E.L. James en hún fjallar um erótískt samband milljarðamæringins Christian Grey og háskólastúlkunnar Anastasiu Steele. Sagan er sögð frá sjónarhorni stúlkunnar sem tekur viðtal við hinn sjarmerandi Christian fyrir háskólablaðið, hún heillast strax af honum en veit ekki að hann á sér „dökka hlið“ sem snýr að kynlífshegðun hans, hann vill fá að stjórna algjörlega og að Anastasia verði undirgefin sér. Hann er með leikherbergi í húsinu sínu með alls kyns BDSM dóti og það hræðir hina saklausu Anastasiu sem er hrein mey í byrjun sögunnar.

Það áhugaverða við þessa sögu er að upphaflega var hún skrifuð sem Twilight aðdáendaskáldsaga og því eru aðalpersónurnar byggðar á þeim Edward og Bellu. Undirrituð er að lesa fyrstu bókina og sér vel hliðstæðurnar, Anastasia er mjög vandræðaleg og roðnar við minnstu dónalegu hugsun. Christian er dularfullur, guðdómlega fallegur, með bronslitað hár og dökkt leyndarmál. Anastasia á líka vin sem heitir José og hann er voða skotinn í henni, hver ætli það eigi að vera? Það er margt pínlegt við lesturinn og það fyrsta er að nöfnum Bellu og Edward hefur verið breytt í hinar mestu klisjur sem manni gæti dottið í hug við að skrifa erótíska ástarsögu. Christian Grey er líka með grá augu og það er minnst á þau í nánast annarri hverri setningu. Bókin er hræðilega illa skrifuð, með þeim verst skrifuðu sem ég hef lesið en hún er ekki laus við skemmtanagildi samt sem áður.

Nú á að kvikmynda þessa vinsælu bók (hún hefur selst í um 20 milljónum eintaka og toppað metsölulista út um allan heim, þar á meðal í Bandaríkjunum og Bretlandi) og það voru Universal og Focus Features sem tryggðu sér kvikmyndaréttinn eftir tilboðsstríð. Það kemur ný kjaftasaga nánast upp á hvern einasta dag um hver muni hreppa aðalhlutverkin eftirsóttu. Leikarar á borð við Chris Pine, Chris Hemsworth, Ryan Gosling, Ian Somerhalder, Alexander Skarsgard, Matt Bomer og Robert Pattinson hafa verið nefndir í sambandi við Christian á meðan Nina Dobrev, Lucy Hale, Emma Roberts, Selena Gomez og Kristen Stewart eru orðaðar við Anastasiu. Eitthvað segir mér að það séu Twilight aðdáendurnir sem vilja fá Pattinson og Stewart í sömu hlutverk í öðrum búningum.

Rithöfundurinn Bret Easton Ellis hefur boðist til að skrifa handritið og hann vill fá David Cronenberg til að leikstýra. Ellis hefur skrifað nokkrar frábærar bækur sem hafa verið kvikmyndaðar svo sem American Psycho og Rules of Attraction.

Undirrituð myndi vilja sjá Ian Somerhalder sem Grey, að minnsta kosti er vel hægt að sjá hann fyrir sér þegar maður les bókina. Ef Bret Easton Ellis fær eitthverju ráðið getur hann hjálpað til því að Somerhalder lék einmitt í Rules of Attraction. Aðalkvenhlutverkið er snúnara að ráða í, ætli það væri ekki best að finna óþekkta unga leikkonu í það.

Hvað sem þessu líður verður það erfitt verkefni fyrir Universal að koma þessari sögu á hvíta tjaldið án þess að fara yfir strikið, það eru kynlífslýsingar í nánast hverjum einasta kafla en það verður líklega eitthvað klippt út. Það er á hreinu að þessi fær að minnsta kosti R stimpilinn í Bandaríkjunum.

Hvernig líst ykkur á? Hafið þið lesið skáldsögurnar? Hverjir eiga að leika aðalhlutverkin?