The Evil Dead (1981)

Þá er komið að umfjöllun föstudagsins. Fyrir þá aðila sem þekkja þessar umfjallanir ekki/lítið, þá tek ég fyrir eina mynd á hverjum föstudegi sem er titluð sem indí, költ, ódýr, B eða almennt lítið þekkt mynd. Flestar af þessum myndum koma úr hryllingsflokknum, en eftir þessa umfjöllun þar sem ég tek ’80s blóðbaðið The Evil Dead þá fer ég í smá hrollvekjufrí og tek nokkrar öðruvísi líkt og þegar ég fjallaði um Living  in Oblivion og Clerks.

Fimm vinir ferðast út í sveit til að taka sér frí í timburkofa. Eftir að hafa spilað vafasama upptöku sleppa illir andar út og leika lausum hala, þar með breytist krúttlega frí vinanna í blóðuga baráttu við illmenninn.

Þessi kvikmynd fær hugmyndir úr stuttmynd að nafni Within the Woods sem Sam Raimi gerði árið 1978. Myndirnar eiga margt sameiginlegt en Evil Dead er þó mjög skemmtileg hvað varðar frumlegheit. Aðstæðurnar búa yfir skemmtilegum klisjum úr hrollvekjum. Timburkofi í miðjum skógi sem hýsir vinahóp, nektarsenur og kynferðisleg spenna breytist í flæðandi blóð og öskur. Myndin er frekar dimm og fjörug, mikill B stíll yfir henni frá byrjun til enda. Bruce Campbell sem Ash Williams er meira en frábær, hann heldur svo uppi tveimur Evil Dead myndum í viðbót eftir þessa fyrstu klassík. Sam Raimi sem leikstjóri þessarar myndar er stórfínn, gríðarlega skemmtilegur stíll yfir henni og upptakan í samræmi við það. Tom Sullivan er náunginn sem virkilega setti sinn stimpil á þessa mynd, hann sá um meiköpp brellurnar og þær eru með þeim skemmtilegustu/bestu í kvikmynd sem ég hef séð. ’80s myndirnar eru allar með álíka meiköpp brellur, miklu betri en það sem allt nýja stöffið inniheldur að mínu mati. Ef við tökum sem dæmi útlitsskiptinguna á aðal karakternum í The Toxic Avenger. Maður sér ekki slíkt í stórum kvikmyndum nú til dags. Þessi einfalda notkun meiköpps er notuð í nýrri búningi í þeim stóru myndum sem koma út þessa dagana (skiljanlega). Það eru þó minni myndir sem koma út sem innihalda “gömlu“ meiköpp brellurnar, ekki einungis vegna þess að þeir sem koma að myndunum hafa minni pening á milli handanna, heldur líka vegna þess að það er verið að leita að þessu lúkki sem er svo mjög flott og skemmtilegt að sjá.

The Evil Dead (1981) 1080p AC3 BluRay x264 -SSF.mkv_snapshot_00.00.16_[2012.01.13_05.19.55]

Evil Dead serían verður að mínu mati verri með hverri mynd. Önnur myndin er töluvert lélegri en sú fyrsta og sú þriðja er í mesta lagi áhorfanleg, varla meira en það. Góða helgi!