Fáðu borgað fyrir að horfa á hrollvekjur

Halloween, eða hrekkjavökuhátíðin er á næsta leiti, eða í lok október nk. Ef þú vilt gera sem allra mest úr hátíðinni og horfa til dæmis á eitthvað af hrollvekjum, þá er möguleiki á að þú getir fengið borgað fyrir það allt saman, þ.e. ef þú býrð í Bandaríkjunum, eða ert tilbúin/n að ferðast þangað.

Kathy Bates mundar kutann.

Vefsíðan USdish.com leitar nú að einhverjum sem er tilbúin/n að horfa á 13 kvikmyndir sem byggðar eru á sögum Stephen King, fyrir hrekkjavökuna, og ætlar að greiða þeim 1.300 Bandaríkjadali fyrir ómakið, eða um 160 þúsund íslenskar krónur.

Þar sem It Chapter Two er nú í bíó og væntanleg er Doctor Sleep innan skamms, þá býður fyrirtækið fólki að taka þátt í þessu hámhorfi, til að fagna endurkomu trúðsins Pennywise og Danny Torrance, stráksins úr Shining, en Doctor Sleep er einmitt framhald þeirrar myndar.

Til að fá þessa frábæru afsökun fyrir að raða í þig poppi og gosi í næstum heilan sólarhring, í myrkri, undir hlýju teppi, þá verðurðu að segja USdish.com hvernig þér leið eftir áhorfið. Fór hjartað á fullt í hræðilegustu atriðunum? Hver myndanna er í uppáhaldi og hver var síst? Horfðirðu einn eða ein, eða með vini eða fjölskyldumeðlimi?

Heldurðu að þú sért rétt/réttur fyrir verkefnið? Sá sem valinn verður þarf að hafa auga fyrir smáatriðum. Þú þarft ekki prófgráðu, en þú þarft að vera 18 ára eða eldri. Það skemmir ekki fyrir ef þú ert sérstakur hrollvekjuunnandi, en einnig máttu alveg vera veikgeðja sál sem finnst gaman að hrökkva við, ítrekað.

Til að sækja um þá þarftu bara að segja USdish.com að þú sért sá eini / eina rétti / rétta í starfið, og segja hvað þú vilt fá út úr þessu ( það er fyrir utan peningana ).

Búið er að gera kvikmyndir eftir tugum bóka Stephen King, en hér er stuttlistinn:

Carrie” (sú upprunalega eða endurgerðin frá 2013)
“Children of the Corn”
Christine”
Creepshow”
“Cujo”
Dreamcatcher”
“It” (sú upprunalega eða endurgerðin frá 2017)
The Mist”
Pet Sematary” (sú upprunalega eða endurgerðin frá 2019)
“Salem’s Lot”
“The Shining”
“Thinner”
Misery”

USdish mun útvega myndirnar, þannig að þú þarft ekki að leigja þær eða finna þær með öðrum hætti.

Þá færðu einnig hjálpartæki eins og vasaljós, teppi, popp, nammi, og Fitbit úr til að fylgjast með hjartslættinum. Þá færðu í aukabónus gjafakort í bíó til að sjá annað hvort It Chapter Two eða Doctor Sleep.

Umsóknarfrestur á vef USdish.com er til 15. október nk.