Hjartasteinn meðal nýrra radda í Toronto

Íslenska kvikmyndin Hjartasteinn, fyrsta kvikmynd leikstjórans og handritshöfundarins Guðmundar Arnars Guðmundssonar í fullri lengd, hefur verið valin í Discovery hluta hinnar virtu alþjóðlegu kvikmyndahátíðar í Toronto í Kanada.

Hjartasteinn-

Discovery hluti hátíðarinnar er tileinkaður spennandi nýjum röddum í kvikmyndagerð og þar mun Hjartasteinn keppa um FIPRESCI gagnrýnendaverðlaunin. Hátíðin fer fram frá 8. – 18. september.

Skömmu áður en Hjartasteinn verður sýnd á Toronto hátíðinni verður hún heimsfrumsýnd á einni af stærstu kvikmyndahátíðum heims, í Venice Days hluta kvikmyndahátíðarinnar í Feneyjum.

Hjartasteinn gerist yfir sumar í litlu sjávarþorpi á Íslandi. Sagan fjallar um sterka vináttu tveggja drengja sem eru að taka sín fyrstu skref inn í unglingsárin og uppgötva ástina.

Tökur fóru fram haustið 2015 í Borgarfirði eystri, Seyðisfirði, Vopnafirði og Dyrhólaey.

Með helstu hlutverk fara ungstirnin Baldur Einarsson, Blær Hinriksson, Diljá Valsdóttir, Katla Njálsdóttir, Jónína Þórdís Karlsdóttir, Rán Ragnarsdóttir, Daníel Hans Erlendsson, Theodór Pálsson og Sveinn Sigurbjörnsson ásamt þeim þaulreyndu Nínu Dögg Filippusdóttur, Sveini Ólafi Gunnarssyni, Nönnu Kristínu Magnúsdóttur, Søren Malling og Gunnari Jónssyni.