Hjartasteinn Guðmundar fær hollensk verðlaun

Nýjasta verkefni leikstjórans Guðmundar Arnars Guðmundssonar, leikstjóra stuttmyndarinnar Hvalfjörður, kvikmynd í fullri lengd að nafni Hjartasteinn, hlaut svokölluð Warnier Posta verðlaun á NPP samframleiðslumarkaði í Hollandi sem er á vegum Kvikmyndahátíðar Hollands. Um er að ræða markað fyrir evrópsk verkefni í þróun með það fyrir augum að stofna til samstarfs og verða verkefni sínu úti um fjármögnun, að því er fram kemur í tilkynningu frá Kvikmyndamiðstöð.

Heartstone2

Það voru þeir Anton Máni Svansson framleiðandi og Guðmundur Arnar Guðmundsson leikstjóri, handritshöfundur og framleiðandi sem kynntu verkefnið. Á myndinni má sjá þá Anton og Guðmund með verðlaunin.

Verðlaunin eru veitt fyrir verkefni í þróun og Hjartasteinn var eitt tveggja verkefna sem hlaut verðlaun. Alls voru 80 verkefni send inn til skoðunar og 23 þeirra frá 15 löndum valin til þátttöku.

Dómnefnd hafði eftirfarandi að segja um ástæðu verðlaunaveitingarinnar: „Mjög persónuleg saga sem fjallar um að koma út úr skápnum og um leið að fullorðnast þar sem hráslagaleg íslensk sveit er í bakgrunni. Þetta er kvikmynd sem hefur möguleika á að vera bæði áhrifarík og hjartnæm – kvikmynd um það að vera nógu hugrakkur til að vera öðruvísi í litlu samfélagi og hvernig vinátta getur hafið sig yfir álitamál. Dómnefndin var sérstaklega hrifin af þeirri ástríðu og eldmóð sem einkenndi kynninguna á verkefninu.“

Anton Máni sagði í samtali við HFM daily að verðlaunin væru mikill heiður fyrir þá tvo, enda hafi verið úr mörgum spennandi verkefnum að velja fyrir dómnefndina: „Verðlaunin finnst mér, staðfesta hve mikið býr í þessu verkefni, og mun hjálpa okkur að ná þeim næstu skrefum sem nauðsynleg eru til að við getum náð markmiðum okkar fyrir myndina.“