Ný stikla: Haywire

Haywire, nýja hasarmyndin eftir Steven Soderbergh var að fá nýja stiklu. Í þessari er minna talað og meira gert, og lítur myndin því umtalsvert betur út núna. Þetta er sú fyrsta af tveimur myndum eftir Soderbergh sem koma út árið 2012, en karlstripparamyndin Magic Mike er vænantleg í sumar. Í Haywire fer einvalalið leikara með hlutverk, og ber þar helst að nefna Ewan McGregor, Antonio Banderas, Bill Paxton, Michael Douglas, Michael Fassbender og Channing Tatum. Þeim stillir hann svo upp í kring um hina óreyndu Gina Carano, sem fer með aðalhlutverk myndarinnar. Hún er víst glímudrottning úr blönduðum bardagaíþróttum og hefur gert garðinn frægan í slagsmálaþáttum á borð við American Gladiators. Þannig að hún kann að slást, og ætti vonandi að fá stuðning frá þessum kanónum í þeim atriðum sem hún þarf eitthvað að leika.

Skv. Soderbergh er þetta þriðja síðasta mynd hans, en þrátt fyrir að vera gríðarlega afkastamikill talar hann alltaf um að hann sé alveg að fara að hætta í bransanum. Ég trúi því þegar það gerist. Haywire fjallar annars um sérsveitarkonu sem leitar hefnda eftir að hún er svikin af samstarfsfélaga í leyniþjónustunni, og er væntanleg 27. janúar 2012. Hér er stiklan.