Fjórða John Wick myndin komin í gang

Keanu Reeves mun mæta til leiks enn á ný sem leigumorðinginn ósigrandi John Wick, í John Wick mynd númer fjögur. Gera má fastlega ráð fyrir því að hasarinn, sem er þó nægur í mynd númer þrjú sem er núna í bíó, verði svakalegri en nokkru sinni fyrr.

Það voru Lionsgate og Summit Entertainment framleiðslufyrirtækin sem staðfestu gerð myndarinnar, en sagt er frá málinu á kvikmyndasíðunni Movieweb. Frumsýningardagur hefur þegar verið ákveðinn, í maí árið 2021.

Fréttirnar af mynd númer fjögur komu í formi SMS skilaboða frá kvikmyndafyrirtækjunum, en skilaboðin fengu þeir send sem höfðu skráð sig í áskrift að fréttum af John Wick 3: Parabellum.

Í skilaboðunum segir ekki einungis að mynd númer fjögur sé komin í gang, heldur segir þar frá fyrrnefndum frumsýningardegi.

Þetta þýðir að Lionsgate stendur fast á þeirri nýju stefnu sinni að flokka myndirnar frekar sem sumar – hasar – stórmyndir. Fyrstu myndirnar tvær voru ekki frumsýndar að sumri, heldur var fyrsta myndin frumsýnd í október 2014 og sú næsta í febrúar 2017.

Ekkert meira hefur verið gefið upp um myndina nýju, en líklega mun sagan halda áfram þar sem þriðja myndin endaði, rétt eins og venjan hefur verið í seríunni.

Keanu Reeves hefur lýst því yfir að hann sé klár í að klæðast svörtu jakkafötunum aftur, og leikstjórinn Chad Stahelski er sömuleiðis til í tuskið.

Stahelski var annar af tveimur leikstjórum fyrstu myndarinnar, ásamt David Leitch, en Leitch sneri sér síðan að myndunum Atomic Blonde og Deadpool 2. Stahelski leikstýrði svo John Wick myndum númer tvö og þrjú einn.

John Wick: Chapter 3 – Parabellum er sú vinsælasta í seríunni á frumsýningardegi, en tekjurnar í Bandaríkjunum námu 57 milljónum dala.