Læstur inni vegna Nolan myndar

Þó að Twilight leikarinn Robert Pattinson hafi skrifað undir samning um að leika í næstu mynd leikstjórans Christopher Nolan, þá hefur hann aðeins fengið að lesa handritið einu sinni, og ekki nóg með það heldur var hann læstur inni í herbergi á meðan á lestrinum stóð.

Staðfest var nú nýlega að leikarinn breski, sem kemur næst fyrir sjónir almennings í kvikmyndinni High Life nú í vor, muni leika í hinu dularfulla Nolan verkefni, ásamt Elizabeth Debicki og BlacKkKlansman leikaranum John David Washington. Heimildamenn hafa lýst myndinni sem “grjótharðri, nýstárlegri, spennu-stórmynd”, eins og sagt er frá í The Independent.

Í samtali við USA Today útskýrði Pattinson hve langt Warner Bros framleiðslufyrirtæki myndarinnar er tilbúið að ganga til að koma í veg fyrir að ekkert leki út um efni myndarinnar.  “Ég var læstur inni í herbergi á meðan ég las handritið – ég er ekki með það undir höndum sjálfur,” sagði Pattinson. “Ég hef verið hikandi við að taka þátt í stórmyndum í mörg ár, en það er bara eitthvað sérstakt við efnið hans Chris Nolan. Hann virðist vera eini leikstjórinn sem getur gert persónulegar, sjálfstæðar kvikmyndir á stórum skala. Ég las handritið og það er stórkostlegt.”

Tökur myndarinnar hefjast nú í sumar. Aðrar myndir leikarans sem eru væntanlegar eru hrollvekjan The Lighthouse, sem var svo erfið fyrir hann að hann næstum því “kýldi” leikstjórann – og hin sögulega Netflix mynd The King, en þar leikur hann á móti Timothée Chalamet.

Nýja Christopher Nolan myndin kemur í bíó í júlí 2020.