Tökur hafnar á Spider-Man 2 – söguþráður birtur

Tökur eru hafnar á næstu Spider-Man mynd, The Amazing Spider-Man 2 í New York í Bandaríkjunum.  Samkvæmt tilkynningu frá Columbia Pictures þá verður þetta fyrsta Spider-Man myndin til að verða tekin alfarið í New York og nágrenni.

Myndin er framhald myndarinnar vinsælu The Amazing Spider-Man, og helstu leikarar eru Andrew Garfield, Emma Stone, Jamie Foxx, Shailene Woodley, Dane DeHaan, Colm Feore, Paul Giamatti og Sally Field.

Í The Amazing Spider-Man 2, á Peter Parker, sem leikinn er af Andrew Garfield, annríkt eins og fyrri daginn, á milli þess sem hann berst við illmenni í búningi Köngulóarmannsins og eyðir tíma með kærustunni, Gwen, sem leikin er af Emma Stone, þá líður að útskrift úr menntaskóla. Peter er ekki búinn að gleyma loforðinu sem hann gaf föður Gwen um að vernda hana með því að halda sig fjarri henni – en það er loforð sem hann einfaldlega getur ekki staðið við.

Hlutirnir breytast fyrir Peter þegar nýr þorpari, Electro, leikinn af Jamie Foxx, kemur fram á sjónarsviðið, ásamt því sem hinn gamli vinur hans Harry Osborn, sem Dane DeHaan leikur, snýr aftur. Auk þess koma í ljós nýjar upplýsingar úr fortíð Peters.

Myndinni er leikstýrt af Marc Webb og handrit skrifar Alex Kurtzman,  Roberto Orci og Jeff Pinkner, en James Vanderbilt gerði upphaflegt uppkast að handriti.

Myndin er byggð á Marvel teiknimyndasögu eftir Stan Lee og Steve Ditko 

Myndin verður frumsýnd 2. maí, 2014.