Bróðir Han Solo leikstjóra fær hlutverk í myndinni

Clint Howard, bróðir hins rómaða leikstjóra Ron Howard, á það til að birtast í kvikmyndum bróður síns, þó að hann sjáist oftar í ódýrari myndum en Ron er þekktur fyrir að gera. Nú munu þeir bræður leiða saman hesta sína enn á ný í nýju Han Solo hliðar-stjörnustríðsmyndinni, sem Ron Howard leikstýrir. Þetta staðfesti eldri bróðirinn Ron á Twitter:

Ekkert er vitað að svo stöddu hvaða hlutverk Clint mun leika. Segjum svo að hann komi til með að leika geimveru yrði það ekki í fyrsta skiptið því leikarinn fór með hlutverk geimveru í Star Trek þættinum The Corbomite Maneuver árið 1966, eins og Empire kvikmyndaritið bendir á.

Ron Howard tók við leikstjórnartaumunum í Han Solo myndinni af þeim Phil Lord og Chris Miller, en þeir voru látnir taka pokann sinn eftir að þeim lenti saman við Lucasfilm yfir nokkrum hlutum eins og leikspuna og leikstjórnarstíl.

Ron Howard hefur unnið að myndinni undanfarna nokkra mánuði og verið duglegur að benda á jákvæða þætti við myndina: „Þetta er frábært handrit, stórkostlegur leikhópur, og ég á í æðislega skemmtilegu sköpunarferli með honum,“ sagði hann við The Hollywood Reporter.

Alden Ehrenreich leikur Solo, en aðrir helstu leikarar eru Joonas Suotamo sem Chewbacca, Woody Harrelson, Donald Glover, Emilia Clarke og Thandie Newton.

Myndin er væntanleg í bíó í maí á næsta ári.